16.3.11

Upphafið.

Ég frétti af svona aðgerðum fyrir ca tveimur árum í gegnum youtube og hef fylgst með sögum fjölda fólks sem hafa staðið í þessu og verið svo yndislegt að það hefur leyft heiminum að fylgjast með sér, bæði sigrunum og erfiðleikunum.  Ég á sínum tíma skoðaði að fara til Bretlands í aðgerðina og sá fullt af síðum sem buðu uppá þetta á 6500-6900 pund og sendi fyrirspurnir á nokkra staði en lét þar við sitja, fannst þetta eitthvað svo fjarlægt og mikið vesen.

Fyrir jól 2010 sá ég svo litla frétt í Fréttablaðinu um að íslenskur læknir Auðun Sigurðson væri með fund til að kynna svona aðgerðir og ég nánast grét þegar ég áttaði mig á því að ég yrði ekki á landinu til að fara á fundinn, en það að það væri íslenskur læknir gaf mér nýja von og strax og ég kom heim fór ég á http://www.er.is/ og spurði og spurði hvort fólk vissi hvernig maður kæmi sér í samband við Auðun og loksins gaf sig fram ein yndisleg kona sem þekkti til og gaf mér upp emailið hans og sagði mér jafnframt að hann væri að opna heimasíðu.  Ég stökk til og sendi honum línu strax, sem hann svaraði nokkrum dögum seinna og svo hringdi hann í mig og svaraði helstu spurningum mínum um aðgerðina.  Ég gaf mér svo nokkra daga til að ræða við fjölskylduna og hafði svo samband við hann aftur og bókaði tíma í aðgerð þann 24.mars!!

Hér fyrir ofan verður sagan mín um mína aðgerð og vonandi mína sigra, vonandi hjálpar það einhverjum að stíga skrefið og ekki hika við að senda mér skilaboð ef fólk hefur einhverjar spurningar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli