31.3.11

Vika frá aðgerð.

Bara vika frá aðgerð og lifið komið í eðlilegt horf. Mér líður vel, saumarnir gróa vel og ég er orðin svona 90% eins og fyrir aðgerð og finn lítið fyrir því að ég hafi verið í stórri aðgerð fyrir aðeins viku, mig hefði aldrei grunað að ég yrði svona fljót að jafna mig.  Í gær var fyrsti dagurinn sem ég fékk engan loftverk uppi öxlina og jafnframt fyrsti vinnudagurinn og allt gekk eins og í lygasögu.

Viktaði mig i morgun og viktin sýndi 102.8 kg.

Það er svolítið skrítin tilfinning að vera með bandið og vera ennþá bara á fljótandi, ég er aldrei svöng en finn samt heldur aldrei fyrir bandinu í raun.  Er að prufa mig áfram í mat, síðan ég ældi kjúklingasúpunni á spítalanum hef ég haft litla lyst á súpum en borða sjávaréttasúpuna frá 1944 með bestu lyst, einn sigtaður skammtur eru tvær máltíðir fyrir mig og í gær var það eina sem ég borðaði þann daginn.  Kakósúpan sem ég borðaði um daginn fannst mér of þung í maga, varð flökurt, þannig að ég mæli ekki með henni strax.  Auðun vildi að ég væri á fljótandi alveg í 2 vikur og var þá að tala um til að ná hámarks árangri í þyngdarlosun, en bókin talar um viku þannig að ég ætla að taka hinn gullna meðalveg og byrja að prufa mig áfram í maukuðum mat um helgina.

29.3.11

Vinna á morgun

Í dag er fyrsti dagurinn sem ég reyni að "borða" 3 sinnum yfir daginn, fram að þessu hef ég verið að fá mér smá og smá allan daginn til að ná upp orku. En í morgun fékk ég mér morgunmat, 5 frekar litlir sopar af AB mjólk runnu vel niður og ég var södd, í hádeginu fékk ég mér svo hálft glas ca af kakósúpu g hálft glas af appelsínsafa.  Ég ákvað í dag að fá mér wind-eze strax eftir máltíðir og hef ennþá ekki lent í slæmum vindverkjum þá það séu ennþá smávegis verkir til staðar og ég er að drekka svona vítamín vatn allan daginn og þarf að standa mig aðeins betur í vatninu.  Í kvöld er ég svo ákveðin í að fá mér sigtaða sjávarréttasúpu (1944) og mig hlakkar mjög til. 

Morgunn er svo fyrsti vinnudagurinn eftir aðgerð, ég hugsa að það verði ekkert mál ef ég næ að koma niður nægilegum kaloríum.  Sárið heldur áfram að gróa og lítur vel út, ég finn lítið fyrir því í raun og þarf bara að passa mig að vera ekki að lyfta neinu og þá er ég í góðum málum.

28.3.11

Home sweet home.

Flugið gekk vel, fann ekki fyrir neinum aukaverkunum og leið almennt vel fyrir utan smávegis vindverki sem sjálfsagt stöfuðu af því að ég drakk ekki nægilega rólega, svaf vel í eigin rúmi og dagurinn byrjar vel. Tók plásturinn af stóra skurðinum áður en ég fór að sofa, hann lítur vel út, talsvert mar og bólgur ennþá en ekkert sem ég hef áhyggjur af hinsvegar (tek kannski mynd af þessu í dag), en ég er með 5 skurði í heildina, 4 eru bara pínu litlir kannski hálfur sm og svo er aðalskurðurinn kannski 5-6 sm og allir eru þeir límdir saman þannig að það eru engir saumar sem maður þarf að spá í.

Morgunmaturinn var alíslensk kókómjólk (hafði svo ekki lyst á LGG) með allri sinni óhollustu en núna þessa dagana snýst þetta um að koma niður nægilegum kaloríum til þess hreinlega að það líði ekki yfir mig við minnstu hreyfingu og á meðan ég er að ná upp orku, hef verið að ná að koma niður kannski 2-300 kalorium á dag og er sátt með það.   Ennþá hef ég enga löngun í mat og þarf að passa mig að gleyma ekki að fá mér eitthvað annað en vatn, en ég hugsa að ef ég mundi ekki spá í því þá mundi líkaminn ekki kalla á neitt annað en vatnið bara.  Steig á vikt í morgun, hún sýndi 103.9 kg en formleg viktun verður ekki fyrr en á fimmtudag eða viku eftir aðgerð :)

27.3.11

Fylling.

Gleymi alltaf að skrifa það, en Auðun gerir þetta talsvert öðruvísi en aðrir sem ég hef lesið um eða þá að þetta er það nýjasta, en ég semsé fékk strax 4 cc fyllingu í bandið en venjulega les maður alltaf að bandið sé haft tómt fyrstu 4 vikurnar meðan allt er að gróa, en ekki hjá Auðun.  Ég mun svo fara aftur eftir ca 4-5 vikur (hann kemur til landsins í endaðan apríl) og þá mun hann bæta meira á það og hann talaði um að fara alveg uppí 7cc (bandið er 10cc, minni týpan semsé).

Dagur fjögur - Heimferð

Vaknaði nokkuð hress í morgun, ákváðum að taka leigubíl frá hótelinu að lestarstöðinni í Birmingham og taka lestina beint þaðan til London, mæli með að fólk geri það frekar en reyna að taka lestina beint til Bromsgrove. Fór í Boots og fékk mér Rennie og Wind-eze og hefði átt að gera það mikið fyrr, mæli með að fólk sé búið að kaupa sér vindlosandi, þvílíkur munur!  Finn aðeins að það tekur í sárið, en eftir að ég losnaði við vindverkina líður mér bara nokkuð vel.  Búin að koma niður allskonar vökva í dag, ávaxtasafar fara best niður og eins fékk ég mér heitt kakó áðan sem var snilld, finn alveg að ég þarf að drekka meira af kaloríum til að finna ekki fyrir svima og hlakka til að komast heim og prufa allskonar jógurt og slíkt sem ég þekki, LGG er efst á óskalistanum, þó ég hafi akkúrat enga matarlyst og finnist sum matarlykt hreinlega vond þá er góð tilfinning að fá eitthvað í magann.

Flug í kvöld, kvíði pínu.. hef lesið á netinu að vegna þrýstings þá þrengist á bandinu í flugi og sumir upplífa að geta ekki kyngt eigin munnvatni og finnast þeir hálfpartinn vera að kafna, vonandi verður ekkert svoleiðis hjá mér.   Vikt á morgun!

26.3.11

Dagur þrjú.

Get alveg viðurkennt að dagurinn í gær var hrikalegur, mikil flökurleiki, hausverkur og almenn vanlíðan. Náði ekki að koma niður nema ca hálfum líter af vatni, og annað eins af ávaxtasafa og á tímabili fannst mér þetta alls ekki þess virði og dauðsá eftir að hafa lagt þetta á mig.  Ég hinsvegar vaknaði mun betri í morgun, vonandi helst það út daginn. Finn aðeins fyrir vindverkjum, en ekkert sem er hrikalega slæmt.  Hef aðeins verið að fá hungurverki, það er sérstök tilfinning því ég er alls ekki svöng en maginn mótmælir því stöðugt.  Finn alveg að þó mig langi ekki beint í mat, þá þráir munnurinn að fá eitthvað og matarauglýsingar í sjónvarpi pirra mig.  Við þurftum að sprauta mig í gær með blóðþynningarlyfjum og þurfum að gera það áður en ég fer í flug á morgun aftur og það gekk bara vel.  Verkjalyfið sem ég fékk á sjúkrahúsinu er viðbjóður, þetta er svona krakkaverkjalyf í fljótandi formi með appelsínubragði og er næstum ódrekkandi, vona að ég þurfi ekkert á því að halda í dag en mæli annars með því að fólk taki með sér stíla að heiman, endaþarmsverklyfsstílar fást ekki í UK og eru must eftir svona aðgerð.

Ákváðum að fara til baka i gegnum Birmingham, en komum hingað með allskonar stoppum og rugli og nennum því ekki, þannig að við tökum leigubíl til New street stöðina í Birmingham og okkur var lofað því á 20 pund, svo fann ég lestarmiða á 22 pund á mann, 1.class með neti alla leiðina og ekkert stopp sem kemur okkur til London, svo þurfum við bara að koma okkur til Heathrow þaðan sem verður ekkert mál held ég.

Hlakka rosalega til að stíga á vikt þegar ég kem heim.

25.3.11

Aðgerðadagur

Í gær fimmtudag mættum við kl.7 að morgni á sjúkrahúsið í innlögn, við höfðum farið daginn áður í blóðprufu og því var ekkert því til fyrirstöðu að leggjast inn, við biðum í kannski klst áður en kom að okkur og svo var okkur fyllt inná einkaherbergi.  Ég viktaðist 107 kg á sjúkrahúsinu. Sjúkrahúsið er uppí miðri sveit, svakaleg bygging sem sjálfsagt var einhverskonar ríkramannasetur og breytt í einkasjúkrahús.  Ég hitti svæfingalæknirinn fyrst, og svo kom Auðun og fór yfir allt með okkur aftur.  Ég átti að vera nr.7 í röðinni sem hefði þýtt að ég hefði farið í aðgerðina um kaffileiti en vegna þess að ég ætlaði ekki að vera á sjúkrahúsinu yfir nótt þá potaði hann mér framar og var ég nr.3 sem þýddi að aðgerðin var um kl.11.  Það er svosem ekki margt hægt að segja um aðgerðina sjálfa, ég var svæfð og vaknaði einhverri klst seinna og var í móki meira og minna alveg til kaffileitis en þá fór ég aðeins að rumska almennilega og fékkst til að standa upp og drekka smá.  Um kvöldmat var með boðin smoothy sem ég drakk ca helming af og svo sögðu hjúkkurnar (sem notabene er yndislegar) að ég yrði að smakka smá súpu áður en ég færi heim, sem og ég gerði en þá var ég trúlega búin að ofreyna magann og ég endaði á að líða ógeðslega illa og ældi svo, klst síðar leið mér mun betur og fékk loksins að fara uppá hótel. 

Ég svaf vel í nótt, var ekki mikið kvalin en er búin að pína í mig smá súpu í dag, ca hálfum líter af vatni og smá appelsínusafa.  Mér líður frekar illa, með hausverk og er flökurt en vonandi líður það hjá þegar líður á daginn.

17.3.11

Greiðsla.

Svona aðgerð er langt frá því að vera ódýr, en er hægt að verðleggja heilsuna?  Ég setti þetta þannig uppfyrir mig að ég væri búin að eyða sjálfsagt tugum eða jafnvel hundruðum þúsunda í allskonar töfralausnir með misjöfnum árangri, allt frá herbalife að líkamsræktarkortum en alltaf vantaði að fylgja þessu til enda, gefast ekki upp.

Aðgerðin kostar 5500 pund, sem ég greiði helming hérna heima inná reikning Auðuns og restina fer ég með í vasanum út og greiði þar.  Ég heyrði að það væri hægt að fá uppáskrifað hjá Auðun að maður væri að fara í svona aðgerð og fá undanþágu hjá Seðlabankanum á gjaldeyrishöftum en ég ákvað strax í upphafi að ég ætlaði að segja sem fæstum frá hvað væri að gerast og því hentaði hitt mér betur.

16.3.11

Upphafið.

Ég frétti af svona aðgerðum fyrir ca tveimur árum í gegnum youtube og hef fylgst með sögum fjölda fólks sem hafa staðið í þessu og verið svo yndislegt að það hefur leyft heiminum að fylgjast með sér, bæði sigrunum og erfiðleikunum.  Ég á sínum tíma skoðaði að fara til Bretlands í aðgerðina og sá fullt af síðum sem buðu uppá þetta á 6500-6900 pund og sendi fyrirspurnir á nokkra staði en lét þar við sitja, fannst þetta eitthvað svo fjarlægt og mikið vesen.

Fyrir jól 2010 sá ég svo litla frétt í Fréttablaðinu um að íslenskur læknir Auðun Sigurðson væri með fund til að kynna svona aðgerðir og ég nánast grét þegar ég áttaði mig á því að ég yrði ekki á landinu til að fara á fundinn, en það að það væri íslenskur læknir gaf mér nýja von og strax og ég kom heim fór ég á http://www.er.is/ og spurði og spurði hvort fólk vissi hvernig maður kæmi sér í samband við Auðun og loksins gaf sig fram ein yndisleg kona sem þekkti til og gaf mér upp emailið hans og sagði mér jafnframt að hann væri að opna heimasíðu.  Ég stökk til og sendi honum línu strax, sem hann svaraði nokkrum dögum seinna og svo hringdi hann í mig og svaraði helstu spurningum mínum um aðgerðina.  Ég gaf mér svo nokkra daga til að ræða við fjölskylduna og hafði svo samband við hann aftur og bókaði tíma í aðgerð þann 24.mars!!

Hér fyrir ofan verður sagan mín um mína aðgerð og vonandi mína sigra, vonandi hjálpar það einhverjum að stíga skrefið og ekki hika við að senda mér skilaboð ef fólk hefur einhverjar spurningar.