30.6.11

Vika 14 - Fylling

Fór í morgun og fékk smá áfyllingu á bandið, var pínu svekkt að það var bara sett 1ml á bandið núna, hefði alveg viljað fá 2-3 að minnsta kosti en læknirinn ræður þessu víst. Þetta var mín fyrsta áfylling á Domus Medica, var mjög fljótlegt, maður skráir sig inn, fer inní spes herbergi þar sem maður fer úr fötunum og í svona sjúkraslopp, svo leggst maður á bekk og læknirinn fyllir á bandið með hjálp röngentækis sem hann getur horft á í skjá við hliðina á sér,  ég var svo látin drekka eitthvað svona þykkt jarðaberjajukk og það var mjög gaman að sjá á skjánum hvernig bandið stoppaði það og svo lak bara smá í gegn.  Þetta tók ekki nema 10 mínutur tops

Fylling í Domus kostar ca 6500 kr og venjulega er það þannig að maður hefur samband við Auðun og hann sendir inn beiðni og þær hjá Domus hringja svo í mann og bóka tíma, ég að vísu hringdi sjálf í röngendeildina núna vegna þess að síðast náðu þeir víst ekki í mig.

Er búin að standa alveg í stað í þyngd, vonandi fer allt af stað núna eftir áfyllinguna.  Er farin að hreyfa mig aðeins,  ég og maðurinn minn reynum að hjóla að minnsta kosti þrisvar í viku, byrja rólega og hef verið að fara þetta 4-6 km og stefnan er sett á að auka það hægt og rólega með auknu þoli.

23.6.11

Vika 13

Hef verið hrikalega löt að koma með update enda svosem ekki mikið búið að gerast. Lífið gengur bara sinn vanagang og ég er að léttast hægt og rólega, alltof hægt og rólega að eigin mati oft en það er kannski það sem fólk þarf að gera sér grein fyrir í upphafi að þetta gerist mjög hægt.  Ég veit alveg að ég er ekkert einsdæmi, ég hitti konur hjá Auðun þegar ég fékk fyllingu, sem var lengra síðan að fóru í aðgerðina sem voru búnar að léttast um þetta 7-12 kg.  Ég er ánægðust með að ég tók þá ákvörðun að segja mjög fáum frá aðgerðinni, þessir örfáu vinir eða fjölskylda sem vita að aðgerðinni finnst mér sjá þörf á að uppörva mig reglulega, segjast sjá rosalegan mun og vissulega sést einhver munur en það er enginn vá munur samt ennþá og ég get látið þetta fara í taugarnar á mér, því mér finnst stundum á öðrum að þeim finnist þetta gerast of hægt.

Staðan er þannig núna að ég stend í 96.6 kg og er með 5.6cc í bandinu, búin að hafa samband við Auðun og biðja hann um að panta tíma fyrir mig í fyllingu og vonandi heyri ég frá honum fljótlega með það, því ég finn alveg að sjálf að bandið mætti vera þéttara.

Mataræðið er svosem bara svipað, ég passa mig á að vera dugleg að drekka og að inntaka trefja er sé nægileg, ég hef alveg leyft mér að fá mér bakaðar kartöflur, hrásalat, sósur og slíkt með grillmatnum, og reyni að grilla sjálf kjúklingabringur (ef ég hef valið) en vissulega borða ég MUN minna í hvert skipti og verð mun fyrr södd.  Ég hef ekki lent í neinum vandræðum, enda passa ég mig á að tyggja vel og borða hægar.  Brauð og kökur fer flest allt illa niður og mér finnst óþægilegt að borða það, nema hreinlega að það sé annað hvort ristað eða mjög blautt, get td ekki borðað muffins, venjulegt brauð og alls ekki pylsubrauð, en ég get borðað pítubrauð og ef það er hamborgari í matinn þá dugar að sleppa efri brauðinu (enda er það í raun of stór máltíð hvort sem er).

Og svona afþví að mér finnst alltaf gaman þegar ég finn eitthvað sem hentar mínum nýja lífstíl, þá langar mig að benda á Corny free sem fæst í kassa með 6 stk í td Krónunni (sú týpa af Corny fæst ekki í Bónus).  Þetta er semsé lítið "súkkulaðistykki" sem er akkúrat passleg stærð fyrir mig, rétt til að stelast í smá og hvert stykki telur aðeins 68 kcal og mér finnst þetta hrikalega gott og æðislegt að eiga þegar að aðrir fá sér nammi.