30.4.11

Fyrsta fylling

Fór í dag um hádegi og hitti Auðun, við vorum þrjár sem vorum mættar og var ofsalega gott að hitta aðrar konur sem hafa upplifað það sama og ég.  Sjálf fyllingin tók enga stund, maður leggst á bakið, setur handleggina í kross yfir axlirnar og gerir hálfgerða magaæfingu meðan að Auðun fann portið.  Ég var með 3.5 í bandinu og Auðun fór með það uppí 6, ég var svo látin drekka vatn til að kanna hvort væri of mikið í því og það var raunin.  Vatnið fór ekki niður i góðu, þannig að Auðun tók 0,4 út aftur og endanleg niðurstaða var sú að ég er núna með 5.6 í bandinu og finnst það alveg hámark í bili.  Fyrir fyllingu gat ég drukkið nánast eins og ég vildi en eftir fyllingu get ég bara sett niður smásopa í einu og er með pínu vindverki aftur en ekkert samt sem skiptir máli eða hefur áhrif á mitt daglega líf.    Þarf að vera á semi maukuðu næstu 2 daga, ætlaði því að fá  mér hrært egg í kvöldmat en mér til mikillar undrunar kom ég ekki heilu eggi niður og þegar ég ætlaði svo að fá mér smá vatn eftir mat, var ég greinilega orðin alveg full því það bara fór ekki niður og ég varð að "æla" upp vatninu og hluta af egginu, þannig að núna er ég alveg pakksödd og samt varla með hálft egg í maganum.

Auðun talaðu svo um að ég yrði að fara aftur í fyllingu eftir ca 6 vikur, þá yrði sjálfsagt sett þessir 0.4 sem teknir voru úr í dag.  Konurnar sem voru þarna í dag ætla að opna lokaða grúbbu á fésinu fyrir okkur, ég get vonandi komið með meira info um það seinna fyrir þá sem lesa hérna og hafa áhuga á að vera með.

28.4.11

Vika 5

Þrátt fyrir páskaeggjaát og steikur með rjómasósum og kartöflum tvisvar yfir páskana, léttist ég um 1 kg í þessari viku og er rosalega ánægð með það eftir tvær erfiðar vikur í hálfgerði stöðnun.   Ég er farin að smakka allt, sumt gengur illa að borða og ég á aðeins í vandræðum með að ég tygg ekki nægilega eða borða of hratt er eins og það festist með tilheyrandi verkjum og óþægindum, en ég er að vinna í því. Eins prufaði ég að fá mér smá appelsín með páskasteikinni og það var hrikalegt, mér leið strax bara á fyrsta sopa eins og ég væri að springa og mér leið ekki vel fyrr en ég var hálfpartin búin að æla því upp aftur.  Þrátt fyrir að vera ekki komin með fullt band, er bandið alveg að halda við að því leiti að ég verð södd mun fyrr og er að borða mig pakksadda á ca 1/3 af því sem ég borðaði venjulega og ef ég borða mig sadda í kvöldmatnum er ég södd allt kvöldið og hef engan áhuga á neinu kvöldnasli og sama á við um hádegismatinn, ef ég borða mig sadda þá dugar það alveg frammá kvöldmat.  (fæ mér stundum Hleðslu í millimál, finnst það ekkert spes en það er stútfullt af próteinum sem ég er að passa mig á að fá nóg af á dag, samkvæmt læknisráði)

Ég mun hitta Auðun á laugardag og fá þá fyllingu í bandið, hlakka mjög mikið til því ég veit ekki ennþá hverju ég mun eiga von á eftir fyllingu.   Bandið hefur núna enginn áhrif á mitt daglega líf, að öðru leiti en ég er fyrr södd, síður svöng, þarf að borða hægar og get ekki drukkið gos ;)  Mun koma með update eftir fyllinguna á laugardag.

p.s
Veit að það eru tveir sem fóru í aðgerð á eftir mér sem lesa hérna reglulega og vonandi hjálpar það eitthvað að lesa mína upplifun af þessu öllu og á þeim nótum langar að benda á vítamín vatnið sem fæst í Krónunni, þetta appelsínugula er virkilega bragðgott og stútfullt af vítamínum og eins drekk ég mikið af Eðaltopp frá Vífifell með eplum og trefjum, mér finnst hann góður og trefjarnar eru stór plús, því það sem ég hef lesið á erlendum spjallborðum er að sumir eiga í vandræðum með hægðir eftir aðgerðina því inntaka á trefjum er lítil sem enginn, ég hef ekki lent í neinum vandræðum, hvort sem það er eðaltoppnum að þakka eða ekki.

21.4.11

Vika 4 - föst

Náði í Auðun fyrir helgi og hann var sammála mér að það væri best að fá fyllingu sem fyrst og ætlaði að hringja fyrir mig í Domus og fá tíma í þessari viku, hann hinsvegar hafði ekki samband þannig að ég reikna með að þeir hafi ekki átt tíma.  Vonandi fæ ég tíma strax eftir páska, þannig að Auðun geti fínpússað bandið fyrir mig þegar hann kemur í lok mánaðarins.  Staðan er þannig núna að mér finnst bandið halda mjög lítið við og ég hef getað borðað nánast allt (hætt að mauka) og í of miklu magni að eigin áliti, en ef ég borða minna þá er ég að drepast úr hungri allan daginn og ég nenni því ekki með milljónkrónaband í maganum.  Það voru veisluhöld hjá mér um helgina og ég fékk mér sneið af súkkulaðiköku báða dagana, en samt ekki í neinu magni en með miklu samviskubiti og í gærdag var ég svo rosalega svöng um kaffileitið að ég fékk mér pylsu.  Staðan í þessari viku er sú að ég hef ekkert lést, sem eru auðvitað gríðaleg vonbrigði.. því draumurinn var að ég mundi sjá tveggja stafa tölu á eftir fyrsta mánuðinn. 

Gleðifréttirnar hinsvegar eru þær að ég finn alveg á fötunum mínum að þessi kg sem þó eru farin, séu ekki þarna lengur og ég mun hugga mig við það þangað til ég fæ band með fullri virkni.

14.4.11

Vika 3 - Vonbrigði

Hef aðeins lést um 400 gr milli vikna, finnst það hrikalega sorglegt því þó að ég sé farin að finna fyrir svengd þá hef ég passað mig rosalega á hvað ég set niður og veit að ég er að borða MUN minna og hollara í hvert mál heldur en áður.  Hinsvegar varaði Auðun mig á því að þessi tími mundi koma, þar sem ég er ekki komin með fullt band þá virkar bandið ekki fullkomlega og hann sagði að ég yrði orðin mjög svöng þegar kæmi að því að fylla bandið.  Fyrstu vikurnar er maður svo bólginn í kringum bandið að það virkar eins og fullt band en um leið og bólgurnar hjaðna, hjaðnar líka virkni bandsins og ég er því miður þannig að ég græ rosalega hratt og örugglega. 

Ég er ennþá að mauka flestan mat en er aðeins farin að prufa að borða ómaukað því mér finnst ég geta borðað meira af maukuðu heldur en ómaukuðu, maukið sjálfsagt lekur beint í gegnum bandið og ofaní maga.   Ég þarf að passa að tyggja vel það sem ég borða og setja ekkert þurrt niður, það er hrikalega óþægilegt og eins og það stoppi hreinlega á leiðinni niður.  Ég er að spá í að reyna að komast að í Domus í fyllingu í stað þess að bíða eftir Auðun,  meika held ég ekki aðra viku þar sem ég nánast stend í stað en ætla að senda Auðun línu og fá álit hjá honum.

Saumarnir gróa rosalega vel, allar bólgur og mar farið og núna finn ég ekkert fyrir því í mínu daglega lífi að ég hafi farið í aðgerð fyrir 3 vikum og er hrikalega ánægð með það.

7.4.11

Vika 2

Vikan er búin að ganga vel, enginn óþægindi vegna skurðana og allt grær rosalega vel.  Fór að borða maukaðan mat í vikunni og töfrasproti heimilsins er minn besti vinur þessa vikuna, fann að um leið og ég fór að borða mat að viktin sveiflaðist upp og niður og ég átti erfiðara með að finna nákvæmar skammtastærðir.  Hef aðeins í lok vikunnar fundið fyrir svengd og hef suma taka þurft að bæta við fjórða matartímanum en samkvæmt bókinni á maður að reyna að borða bara 3x á dag.  Nokkuð eðlilegur dagur hjá mér er 2 egg í morgunmat, tæplega bolli af súpu í hádeginu (eða maukaður kjúklingur) og ca hálfur bolli af maukuðum kjúkling í kvöldmat, stundum hef ég fengið mér banana eða eitthvað í kaffinu, ég drekk svo vitamín vatn á daginn og heilmikið af hreinum blönduðum ávaxtasafa.  Mér finnst að ég ætti að vera að léttast hraðar miðað við hvað ég er að borða rosalega lítið miðað við áður, en endarleg tala þessa vikuna er 101.8 kg sem er 1kg minna en í síðustu viku sem er í raun flottur árangur ef maður horfir á heildarpakkann og að það eru 52 vikur í árinu.